Ég heiti Rúnar Ástvaldsson og er fæddur í Vestmannaeyjum 5 sept. 1956.

Í barna og gagnfræðaskóla hafði ég mjög gaman af að smíða hluti.  Í barnaskóla var þetta frekar smátt í sniðum en í gagnfræðaskóla fékk ég að smíða mér skrifborð og rúm.  Eftir gagnfræðaskóla lærði ég húsasmíði og varð meistari í þeirri grein.  Ég hef starfað við húsasmíði ásamt því að vinna við sölumennsku.

Þegar ég var 9 ára gamall í Vestmannaeyjum smíðaði ég mér gelluvagn.  Ég var duglegur að gella með vini mínum og síðan gengum við með gelluvagninn hús úr húsi til að selja gellur.  Þannig að þessi fyrsta vinna mín 9 ára að smíða og starfa við sölumennsku varð að ævistarfi.

Árið 2009 lendi ég í alvarlegu bílslysi.  Ég var þá að vinna hjá mjög góðu fyrirtæki við sölu trygginga.  Mér gekk frábærlega vel.  Eftir slysið gat ekki haldið því áfram.  Ég ákvað á þessum tímamótum að verða sjálf míns herra.

Árið 2010 fór ég á námskeið í tré útskurði.  Ég sagði kennaranum  að ég hefði meiri áhuga að læra að tálga. Í lok námskeiðs prófaði ég að tálga litla kalla.  Ég náði ágætum árangri í þessari fyrstu tálgun.

Ég byrja að tálga fugla árið 2012.  Ég hef verið í tálgunarhópum og fengið hjálp hjá góðum vini til að ná tækninni betur.

Mig langaði til að búa til fallegar umbúðir.  Ég fann rétta stærð af kössum.  Dóttir mín, Kristín tók myndir af fuglunum og  sonur minn, Pálmi prentaði myndirnar.  Síðan vildi Gylfi sonur minn endilega búa til heimsíðu, mörg nöfn voru prófuð en á endanum kom hugmyndin frá Gylfa þ.e. bird.is  

Þegar ég byrja að tálga fugl vel ég gott efni.  Ég nota íslensk birki.

Ég byrja á að saga fuglinn í prófíl og tálga með hnífum sem ég smíðaði sjálfur.  Þegar ég hef tálgað fuglinn brenni ég fjaðrir með brennipenna.

Næsta skref er að búa til fætur sem gerðir eru úr 16 vírum hvor fótur.  Ég þarf að snúa vírana og beygja og svo lóða ég þá saman.  

Þar næst er að finna fallega undirstöðu undir fuglinn.  Síðan bora ég fyrir augum og kem þeim fyrir. Oftast mála ég fuglinn og fræsi fyrir heiti i fuglsins í undirstöðuna ásamt fangamerki

Að lokum er fuglinn settur í kassa.  Framan á kassanum er mynd af þeim fugli sem í kassanum er.

Aftan á kassanum eru 9 myndir af fuglum sem ég hef tálgað ásamt nafni, símanúmeri og netfangi.  


RúnarÁstvaldsson – sigra35@gmail.com – 898-3535